154. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2024.

stuðningur við nemendur af erlendum uppruna í skólakerfinu.

[15:47]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hér upp og það að við séum að ræða þetta hér skiptir líka máli í þessari umræðu og þakka þingmanninum fyrir það. Það er margt sem hefur verið vel gert í þessum málum en það má gera betur og það er, eins og þingmaðurinn segir, þörf á samstilltu viðbragði innan skólanna, meðal kennara barnanna en ekki hvað síst meðal foreldra og í öllu starfi með börnum á vettvangi frístunda og íþrótta og í samfélaginu þar sem börnin eru og starfa, ekki bara í skólanum heldur líka utan skólans í frístundum og íþróttum. Við höfum kannski ekki verið að gera mikið miðlægt á landsvísu þegar kemur að þessu. En einstaka sveitarfélög hafa verið með mjög metnaðarfulla stefnu og aðgerðaáætlanir í þessu, ég nefni til að mynda Reykjavíkurborg í því samhengi en það má líka nefna fleiri sveitarfélög. En af því að við vorum að ræða hérna inngildinguna áðan þá erum við að vinna að nýrri aðgerðaáætlun menntastefnu þar sem ég held að það sé þörf á því að taka næstu skref þegar kemur að börnum með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn og byggja ofan á það (Forseti hringir.) sem við erum að gera núna og það þarf að efla alla þá þætti til að bregðast við þessu. Ég þakka þingmanninum fyrir að taka þetta hér upp vegna (Forseti hringir.) þess að það er líka brýnt að ræða þetta reglulega í sölum Alþingis.